Glossary

  • Alrím
    Rím þar sem orð ríma saman um sérhljóð og (eftirfarandi) samhljóð (t.d. valda: gjalda).
  • Alvitur sögumaður
    Sögumaður er alls staðar, veit allt sem gerist, jafnvel á mörgum stöðum í einu og getur séð í hug allra eða flestra persóna. Hann stendur utan við söguna og segir söguna í þriðju persónu.
  • Andstæður
    Orð andstæðrar merkingar eru sett nálægt hvort öðru til að skapa áherslu.
  • Anekdóta
    Stutt, hnitmiðuð frásögn þar sem dregin er upp mynd, t.d. af persónu, atviki eða tímaskeiði; einnig haft um stuttar, fyndnar sögur.
  • Atkvæði
    Inniheldur alltaf eitt sérhljóð og getur haft eitt eða fleiri samhljóð auk þess (já er eitt atkvæði, tala tvö atkvæði, orðabók þrjú atkvæði).
  • Átök/flækja
    Eftir að persónurnar hafa verið kynntar taka við átök sögunnar sem stundum eru kölluð flækja. Átökin stigmagnast og ná hámarki í risi eða hvörfum sögunnar.
  • Auglýsingar
    Knappur texti, orðaleikir, boðháttur, hálfgerður áróðursstíll, jákvæð orð, lýsingarorð (oftast í miðstigi eða efsta stigi) einkenna auglýsingar. Frasar sem heyrast oft eru „sjón er sögu ríkari", „fyrstur kemur fyrstur fær" o.s.frv.  
  • Bein ræða
    Orð eða setning sem höfð er orðrétt eftir e-m í munnlegri eða skriflegri frásögn; auðkennd með gæsalöppum í rituðu máli.
  • Beinar og óbeinar persónulýsingar
    Beinar: Höfundur eða sögumaður getur sett fram beinar lýsingar á persónum, ytra útliti þeirra, framkomu, hátterni og jafnvel innræti, þannig að lesandinn tekur þær trúanlegar og myndar sér skoðun út frá þeim. Lýsingin er hlutlæg. Óbeinar: Sögupersónur lýsa sér sjálfum eða hver annarri; óbeinu lýsingarnar birtast þá í viðhorfi og umsögnum annarra. Lesandi tekur lýsingunum með fyrirvara þar sem hann veit að þær eru ekki hlutlausar hver í garð annarrar.
  • Bréf
    Skipta má bréfaskriftum í tvennt eftir því hver markmiðin með þeim eru. Bréf sem send eru t.d. fyrirtækjum eða stofnunum teljast til formlegra bréfa en þau sem stíluð eru á ástvini eða fjölskyldumeðlimi eru persónuleg. Uppsetningin er í stuttu máli þessi: Staður (í þgf.) og dagsetning efst í hægra horni Ávarp til viðtakandans Texti bréfsins Kveðja og undirskrift sendandans (aðeins neðar og til hægri)
  • Bygging
    Í hefðbundnum sögum er oft talað um að bygging skiptist í: Kynningu aðstæðna Átök (flækju) Ris Lausn
  • Efnisgrein
    Efnisgreinar eru afmarkaðar með greinaskilum. Hver efnisgrein fjallar um eina meginhugmynd. Lengd efnisgreina fer eftir efni þeirra en algeng lengd er sex til tíu línur.
  • Endurlit
    Sú aðferð að hverfa frá beinni frásögn í réttri tímaröð og segja frá atburðum sem gerðust áður en sagan hófst.
  • Endurtekning
    Sömu hljóð, orð eða setningar eru endurteknar til að skapa ákv. hrynjandi og til áherslu. Rím og ljóðstafir eru ein tegund endurtekninga. Það sem er endurtekið þarf ekki endilega að vera algerlega óbreytt (hljótt og kyrrt).
  • Fantasía
    Í fantasíum er veruleikinn brotinn upp og búinn til nýr heimur. Sagan lýsir óraunverulegum atburðum og persónum. Í slíkum sögum getur allt gerst.
  • Frásagnaraðferð
    Staða sögumanns getur verið með ýmsu móti. Þessi staða hefur mikil áhrif á gerð sögunnar. Hún markar frásagnaraðferð höfundar. Algengustu sjónarhorn sögumanns eru: Alvitur sögumaður Takmörkuð vitneskja Fyrstu persónu frásögn Hlutlæg frásögn
  • Frétt
    Upphafsorð fréttar þurfa að vekja athygli lesandans og oftast koma aðalatriði fréttarinnar fram í inngangi. Þá þarf að hugsa um h-in fimm: Hvað gerðist? Hvar? Hvenær? Hvernig? Hvers vegna? Meira að segja þegar ekki er vitað t.d. hvers vegna eitthvað átti sér stað, þarf það að koma fram, þ.e. að það sé ekki vitað... Ekki má gleyma grípandi fyrirsögn.
  • Fyrstu persónu frásögn
    Sögumaður er persóna í sögunni, oftast aðalpersónan, og segir söguna í fyrstu persónu. Sögumaður veit aðeins það sem gerist næst honum og sér ekki í hug neinnar persónu; hann verður sjálfur að draga ályktanir af því sem hann sér og heyrir.
  • Greinaskil
    Efnisgreinar eru afmarkaðar með greinaskilum. Hægt er að sýna þau á tvo vegu: Draga línuna inn um tvö til fimm stafabil í byrjun efnisgreinar. Hafa auða línu á mótum tveggja efnisgreina og byrja þá fremst í línu.
  • Háð
    Segja eitthvað annað en raunverulega er átt við.
  • Hæka
    Japanskt ljóðform, órímað og án háttbundinnar hrynjandi: Þrjár línur með ákveðnum atkvæðafjölda í hverri (5-7-5). Oft tengist efnið náttúru og árstíð. Hækur eru ortar í nútíð.
  • Hálfrím
    Rím um samhljóð en ekki sérhljóð (t.d. valda: elda) eða rím um sérhljóð en ekki samhljóð (t.d. foldar: volgar), skothent rím
  • Handrit
    Á vef MMS eru þessar upplýsingar um handritagerð: Þegar handrit er ritað þá er það sett inn í mjög ákveðið form þar sem notast er við ákveðna leturgerð í ákveðinni stærð. Ef uppsetningunni er fylgt út í æsar má gera ráð fyrir því að ein síða í handritinu verði að einni mínútu í myndinni sem gerð verður eftir því.   Þar sem handrit voru upphaflega skrifuð á ritvél er notast við þá leturgerð sem algengust var í ritvélum fortíðarinnar Courier í 12 punkta stærð með 12 punkta bili milli lína.   Þegar byrjað er á því að skrifa atriði eru fyrst settar niður upplýsingar um hvort atriðið gerist úti eða inni. Hvernig umhverfið er í einu orði og hvaða tími dags. Notast er við HÁSTAFI. Þar á eftir fer lýsing á því sem gerist í atriðinu.   Það sem persónur segja er skotið á milli og jafnað við miðju. Nafn persónunnar er ritað með HÁSTÖFUM og fyrir neðan það í sviga tekið fram ef viðkomandi sýnir ákveðnar tilfinningar og í kjöfarið á því koma þau orð sem persónan segir.
  • Hlutgerving
    Andstæða persónugervingar; það sem er lifandi fær eiginleika dauðra hluta, en einnig hið óáþreifanlega verður áþreifanlegt, t.d. Lengi var ég lokaður gluggi og sumir dagar eru hús.
  • Hlutlæg frásögn
    Sögumaður stendur utan við söguna en hefur ekki yfirsýn því hann sér ekki í hug neinnar persónu hennar. Hann miðlar því sem hann sér og heyrir en leggur ekki út af frásögninni. Frásögnin er í þriðju persónu.
  • Hlutstæð nafnorð
    Hlutstæð nafnorðorð eru þau orð sem tákna áþreifanlega hluti, þ.e. snertanlega hluti eins og tösku, bók og blýant.
  • Kynning aðstæðna
    Sögupersónur og aðstæður þeirra kynntar, oftast í byrjun sögunnar.
  • Lausn
    Í lok sögu er flækjan leyst. Lausnin fylgir í kjölfar hvarfanna og jafnvæginu sem raskaðist í upphafi er náð.
  • Málsgrein
    Málsgrein er á milli tveggja punkta eða „frá stórum staf“ að punkti. Í henni geta verið ein eða fleiri setningar. Í hverri málsgrein þarf að vera a.m.k. ein aðalsetning.
  • Mannanöfn
    Sérstök lög og reglur gilda um nafngiftir á Íslandi sbr. https://island.is/nafngjof. Reglur um íslensk mannanöfn segja meðal annars að nöfn skuli: taka eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í málinu, falla að íslensku málkerfi og ritvenjum og ekki valda þeim ama sem það ber. Hver maður getur ekki borið fleiri en þrjú eiginnöfn. Á vef Þjóðskrár má auk þess finna eftirfarandi upplýsingar: Fullt nafn einstaklings er samsett úr eiginnafni/nöfnum, millinafni ef við á og kenninafni/nöfnum. Jafnframt er ávallt skráð birtingarnafn sem er takmarkað við 44 stafbil og er það nafn sem er miðlað áfram til þjónustuveitenda og er það nafn sem opinberir aðilar og einkaaðilar sjá í sínum kerfum. Auk þess er skráð svokallað miðlað nafn sem er 31 stafbil fyrir þjónustuveitendur sem ekki dreifa birtingarnafni. Dæmi: Fullt nafn: Sigurður Jón Hafnfjörð Hróbjartsson Margrétarson (48 stafbil) Eiginnafn/nöfn: Sigurður Jón Millinafn: Hafnfjörð Kenninafn/nöfn: Hróbjartsson Margrétarson Birtingarnafn: Sigurður Jón H. Hróbjartsson Margrétarson (41 stafbil) Miðlað nafn: Sigurður Jón H. H. Margrétarson (31 stafbil)
  • Myndhverfing
    Ein tegund líkinga sem lesandinn þarf að átta sig á sjálfur. Hún felst í samanburði tveggja ólíkra hluta án þess að nota samanburðarorð, t.d. þú ert sólin í lífi mínu, hann er algjör asni.
  • Örsaga
    Mjög stuttir textar sem geta staðið sjálfstæðir, stundum með ljóðrænu ívafi. Örsögur snúast gjarnan um afmarkaða hugmynd, stakan atburð, augnablik, andrá eða sundruð brot. Oft hefjast þær í miðjum klíðum … og fyrir vikið verða þær snarpar, líflegar, vekja eftirtekt og forvitni um leið og þær skapa nánd við lesandann. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir. (2019). Mjóna, dropi eða skordýr? : Nokkrir þankar um smáar smásögur. Tímarit Máls og menningar, 80(4), 81-95.
  • Persónugerving
    Ein tegund líkinga þar sem ýmis fyrirbæri náttúrunnar, hugmyndir og dauðir hlutir fá mannlega eiginleika eða eiginleika lifandi veru, t.d. lækurinn hjalar, ljósastaurar hneigja sig.
  • Rafmál
    Rafmál er sú tegund máls sem notuð er í rituðum samskiptum milli fólks á stafrænum miðlum, t.d. í smáskilaboðum (sms) eða á samfélagsmiðlum. Það sem einkennir rafmálið eru skammstafanir, slangur og slettur. Þá eru upphrópunarmerki og ýmis tákn eða „tjákn“ notuð í miklum mæli.
  • Rammasaga
    Frásagnarform þar sem ein eða fleiri sögur eru felldar inn í einhvers konar ramma, sem oftast er sérstök frásögn sögumanns af því hvernig sögurnar voru sagðar eða lýsing á því hvernig þær bárust honum í hendur.
  • Rapp
    Rapptextar einkennast af endurtekningum, stuðlum og rími, bæði hálfrími og alrími. Lengd lína er mismunandi og ræðst fyrst og fremst af hrynjandi. Þá eru slettur og slangur áberandi í textum rappara.
  • Ris/hvörf
    Þegar átökin ná hámarki er talað um ris sögunnar eða hvörf. Þá verður alger stefnubreyting á atburðarásinni.
  • Setning
    Í hverri setningu er a.m.k. ein sögn sem líta má á sem kjarna hennar.
  • Slangur
    Svona er orðið slangur útskýrt á Vísindavefnum: Slangur er orðfæri sem notað er í ákveðnum hópum eða við ákveðnar aðstæður. Það víkur frá viðurkenndu málsniði og einkennist af óvenjulegri orðmyndun, leik að orðum og myndmáli. Sögnin að dissa er slanguryrði og merkir 'leggja fæð á e-n', sömuleiðis sögnin bögga sem merkir 'trufla, ergja'.
  • Sletta
    Orð eða orðasamband sem borist hefur inn í tungumál úr öðru máli en er ekki viðurkennt þar sem það hefur ekki aðlagast hljóð- eða beygingarkerfinu.
  • Smásaga
    Stutt, hnitmiðuð saga, oftast með þröngt sögusvið, fáar persónur og einfalda atburðarás; endar oft með einhvers konar afhjúpun sem varpar ljósi á víðara svið. Sagnasafnið Il Decamerone (1348–53) eftir G. Boccaccio er talið marka upphaf nútíma smásagnagerðar. Grasaferð (1847) Jónasar Hallgrímssonar er gjarnan nefnd fyrsta íslenska smásagan (Úr Íslensku Alfræðiorðabókinni).
  • Sögumaður
    Þegar höfundur ákveður að skrifa sögu velur hann sér sögumann. Höfundurinn sjálfur stendur fyrir utan söguna en lætur sögumanninum eftir að segja söguna. Sögumaðurinn getur t.d. verið barn þótt höfundur sé fullorðinn eða kona þótt höfundurinn sé karlmaður.
  • Spakmæli
    Setning eða málsgrein sem í stuttu máli segir almenn sannindi.
  • Spunasaga
    Spunasaga eða aðdáendaspuni (e. fan fiction) er eins og orðið gefur til kynna saga sem er spunnin út frá öðru verki. Hún byggist á söguþræði og persónum úr einni ákveðinni sögu eða bókaflokki og sýnir oft söguna sem unnið er með í nýju ljósi.
  • Stuðlun
    Endurtekning sömu eða sams konar hljóða.
  • Takmörkuð vitneskja
    Sögumaður sér einungis í hug einnar eða fárra persóna sögunnar og lesandi verður að giska á og draga sínar eigin ályktanir af því sem sagt er í sögunni. Sögumaður segir söguna í þriðju persónu.
  • Tákn
    Tákn merkir bókstaflega eitthvað sem kemur í stað einhvers annars. Það vísar til tveggja sviða án augljósra tengsla þar á milli. Kross er t.d. tákn kristinnar trúar, rauður litur tákn ástar eða byltingar, hjarta tákn tilfinninga o.s.frv.
  • Tímaeyða
    Í sögum er oft tímaeyða. Þá líður ákveðinn tími innan sögunnar án þess að fjallað sé um hann.
  • Tími
    Ritunartími: Tíminn þegar sagan er samin; þ.e. hvenær/hvaða ár er sagan skrifuð? Ytri tími: Hvenær gerist sagan? Tíminn þegar sagan er látin gerast; þ.e. hvaða dag, í hvaða mánuði eða hvaða ár gerist sagan? Sögutími (innri tími): Tíminn sem líður innan sögunnar; þ.e. hvað gerist hún á löngum tíma?
  • Tölvupóstur
    Uppsetning tölvupósts minnir að einhverju leyti á bréf. Þar er þó áherslan á efni í sérstakri efnislínu en textinn hefst vanalega á ávarpi, misformlegu eftir því hver viðtakandinn er. Það sama á við um kveðjuna í lokin. Í persónulegri tölvupóstum er rafmál meira áberandi en í þeim sem eru formlegri.
  • Umhverfi
    Náttúrulegt umhverfi: Hvar gerist sagan? Hvernig er staðarháttum, náttúru, húsum o.s.frv. lýst? Gerist sagan í sveit eða borg, á hafsbotni, í skólastofu eða úti í geimnum? Félagslegt umhverfi: Við hvaða aðstæður búa persónur og hver er staða þeirra í samfélaginu? (þarna getur ýmislegt haft áhrif t.d. heilsufar, málfar, atvinna, fjárhagsleg staða, aldur o.s.frv.).
  • Útdráttur
    Svona er hugtakið útskýrt á Vísindavefnum: Útdráttur felur í sér styttingu á texta þannig að aðalatriði eru dregin fram. Mikilvægt er að lykilsetningar upprunalega textans séu tengdar saman þannig að útdrátturinn verði í eðlilegu samfelldu máli. Þannig verður að forðast allar málalengingar og flóknari útskýringar.
  • Viðlíking
    Ein tegund líkinga þar sem einhverju er líkt við eitthvað annað með því að nota samanburðarorð (t.d. eins og, líkt og, sem o.fl.). Viðlíkingar eru algengar í daglegu tali: Hún er sem draumur Hann étur líkt og svín! Þú lætur alltaf eins og asni!
  • Vísun
    Bein eða óbein tilvísun eða skírskotun til atburða, persóna eða aðstæðna úr samtíð höfundar eða úr sögu og bókmenntum, sem ætlast er til að lesandi þekki, t.d. Íslendingasagna, Biblíunnar, ævintýra, þjóðsagna, stjórnmála, dægurlagatexta, merkisviðburða. Tilgangurinn er oft að setja yrkisefnið í víðara samhengi, t.d. að láta í ljós önnur viðhorf en lýst er í verkinu sem vísað er í eða bera nútímann saman við það sem eldra er.
  • Ýkjur
    Meira sagt en átt er við til að vekja sérstaka athygli á einhverju, t.d. að deyja úr leiðindum eða að drukkna í verkefnum.