Gamall vinur

Gamall vinur

Skrifaðu lista yfir krakka sem þú kynntist í leik- eða grunnskóla og hefur ekki hitt í mörg ár. Veltu fyrir þér hvað gæti hafa orðið um þá. Hvar ætli þeir búi? Hvernig líta þeir út í dag? Við hvað starfa þeir eða eru þeir í námi?

Hrærið vel

Hrærið vel

Notaðu persónu sem þú hefur þegar skapað (t.d. í verkefninu Innri maður eða Eyðublað) og komdu henni fyrir í umhverfinu sem þú lýstir í æfingunni Tónlist eða Tívolí, tívolí, tívolí, lí, lí. Segðu stutta sögu af þessari persónu.

Lög og regla

Lög og regla

Hvaða lög þykja þér ósanngjörn? Myndirðu breyta þeim ef þú gætir?

  1. Skrifaðu stutta hugleiðingu um hvers vegna lögin hreyfa við réttlætiskenndinni. Færðu rök fyrir því hvers vegna ætti að breyta þessum lögum. Aflaðu þér gagna máli þínu til stuðnings.
  2. Skapaðu sögusvið þar sem sögumaðurinn neyðist til að fara á svig við umrædd lög.
Þýða – „afþýða“

Þýða – „afþýða“

Þetta skemmtilega verkefni er að finna á Vísindavefnum:

Verkefnið felst í að þýða texta úr ensku sem er þýðing á íslenskum texta án þess að hafa frumtextann fyrir framan sig, bera svo saman „afþýðinguna“ (íslensku), frumtextann og ensku þýðinguna. Með samanburði má draga ýmsar ályktanir er varða orðaval, orðaröð, þýðingarhefð, málnotkun, stíl og jafnvel andrúmsloft.

Ekkert ‚e‘

Ekkert ‚e‘

  • Skrifaðu eina efnisgrein án þess að nota bókstafinn ‚e‘.
  • Skrifaðu eina efnisgrein þar sem fyrsta orðið byrjar á ‚a‘, næsta orð á ‚á‘ þá ‚b‘ og svo áfram eftir stafrófinu.
  • Flettu í gegnum orðabók og veldu af handahófi tíu orð sem fanga athygli þína. Skrifaðu þau hjá þér og skrifaðu hálfa síðu. Öll orðin eiga að koma fyrir í textanum þínum.
  • Finndu málsgrein sem inniheldur a.m.k. tíu orð. Það skiptir engu hvaðan hún kemur. Notaðu hvert orð fyrir sig sem upphafsorð hverrar málsgreinar í þínum eigin texta.