Leikur |
Skrifaðu tvo lista. Hafðu þá í tveimur dálkum, hlið við hlið. Í annan dálkinn áttu að skrifa 10-15 hlutstæð nafnorð en í hinn áttu að skrifa jafnmörg sagnorð sem eru notuð í tengslum við einhvers konar iðn. Nú skaltu mynda 5 setningar með því að setja saman orð úr hvorum flokki. Reyndu að finna upp á óvenjulegum orðasamböndum sem kalla fram nýstárlegar myndir.
Dæmi: skeið – að saga
Hún sagaði hafragrautinn í tvennt með skeiðinni.
Hópvinna |
Ljósritaðu tvær síður úr skáldsögu. Klipptu út stök orð, setningar og málsgreinar og stingdu í umslag. Skiptu um umslag við þann sem situr fyrir aftan þig. Þá hefst glíman við orðin. Raðaðu orðunum handahófskennt upp aftur. Það má búast við að útkoman verði algjört bull á köflum en stundum verða til óvæntar tengingar sem gaman er að vinna með áfram. Veldu áhugaverðustu setningarnar eða setningarbútana úr og skrifaðu efst á blað. Prófaðu að spinna texta út frá þessum hugmyndum með því að skrifa í fimm mínútur án þess að stoppa.
Form |
Lestu alvöru ástarbréf sem hafa komið út á prenti eða verið birt einhvers staðar. Nýlega kom t.d. út bókin Eldheit ástarbréf eftir Friðriku Benónýsdóttur. Hún safnaði saman ástarbréfum allt frá því á 16. öld og fram til dagsins í dag. Veldu bréf sem kveikir í þér, settu þig í spor viðtakandans og svaraðu bréfinu.
Ég um mig |
Skrifaðu bréf til maka, vinar eða einhvers sem þú treystir þar sem þú lýsir því hvað það er sem skiptir þig mestu máli þessa stundina. Hefurðu sett þér einhver markmið nýlega? Langar þig að taka framförum á einhverju sviði? Reyndu að útskýra fyrir viðtakandanum hvers vegna það skiptir þig máli.
Ég um mig |
Rifjaðu upp vandræðalegt atvik eða aðstæður sem voru á einhvern hátt óþægilegar eða framandi. Skrifaðu hálfa síðu án þess að draga nokkuð undan.