Orðalag |
Finndu texta sem hrífur þig. Fáðu upphafsorðin að láni og notaðu þau sem byrjun á þínu eigin verki. Ef þú vilt heldur nota síðustu setninguna gætirðu notað hana sem lokasetningu í textanum þínum. Önnur leið er að klippa eina setningu eða málsgrein út úr lengri texta og vinna með hana, óháð því hvar hana er að finna. Þá mætti stytta sér leið með því að fletta upp í tilvitnanabókum þar sem spakyrðum hefur verið safnað saman.
Orðalag |
Breyttu þessum þremur setningum í nákvæmlega 30 orða efnisgreinar svo úr verði samtals 90 orð. Efnisgreinarnar þurfa ekki að tengjast hver annarri – mega vera stakar.
- Hún gekk framhjá húsinu.
- Þau litu hvort á annað.
- Kötturinn lá í sófanum.
Ég um mig |
Skrifaðu bréf sem er stílað á þig, sem sagt bréf frá þér til þín sem þér er ætlað að lesa eftir 10 ár. Þú hefur algjörlega frjálst val um hvað þú skrifar. Oft er fjallað um líðandi stund í sendibréfum eða einhverja nýliðna viðburði sem eru frásagnarverðir. Geymdu bréfið í lokuðu umslagi á vísum stað og opnaðu það eftir 10 ár.
Ég um mig |
Hefur þú einhvern tímann komist á snoðir um eitthvað sem þú áttir alls ekki að vita eða jafnvel ekki nokkur maður? Segðu frá því hvernig það kom til og hvað þú gerðir við upplýsingarnar.