Að orða hlutina

Að orða hlutina

Hér fara á eftir sex spurningar. Umorðaðu þær þannig að lesandinn fái vísbendingar um persónuna sem talar. Reyndu að koma með þrjár til fimm tillögur að hverri spurningu.

  1. Geturðu hjálpað mér að finna bíllyklana?
  2. Hvað er klukkan?
  3. Viltu bera kassann með mér?
  4. Viltu eitthvað að borða?
  5. Geturðu lánað mér 500 krónur?
  6. Er þetta sæti laust?
Kostakaup!

Kostakaup!

Veldu eitt af eftirfarandi fyrirbærum til að lýsa og gerðu tilraunir með orðalagið.

  • Vonskuveður
  • Hellir
  • Brú
  • Foss
  • Sólarlag
  • Tré
  1. Lýstu fyrirbærinu með því að nota löng orð og langar setningar eða málsgreinar. Leitastu við að nota orð sem eru fleiri en eitt atkvæði.
  2. Skrifaðu lýsinguna með því að nota stutt orð og knappar setningar og málsgreinar.
  3. Ímyndaðu þér að þú sért að útskýra fyrirbærið fyrir einhverjum sem hefur aldrei séð það áður.
  4. Skrifaðu auglýsingatexta um fyrirbærið.
Það er síminn til þín!

Það er síminn til þín!

Hér að neðan eru hugmyndir að símtölum. Veldu eina og skrifaðu samtal. Biddu svo einhvern að lesa það upphátt með þér. Þá heyrir þú strax hvort samtalið er eðlilegt.

Mundu að hafa greinaskil í hvert skipti sem „hinn“ tekur til máls. Öll greinarmerki eiga að vera innan gæsalappanna: „Svona.“

  1. Síminn hringir og persónan ansar. Á hinni línunni er einhver sem tilkynnir persónunni að maki hennar hafi verið henni ótrúr. Persónan þekkir ekki rödd þess sem hringir.
  2. Þú hefur unnið 100 milljónir í happdrætti. Í hvern hringir þú? Hvað myndirðu segja?
  3. Síminn hringir. Kunnugleg rödd úr fortíðinni heyrist úr tólinu. Hver er að hringja? Af hverju?
  4. Persónan tekur upp tólið til að hringja en fær ekki són heldur heyrir hún einhvern hrópa á hjálp.
  5. Persónan er stödd á kaffihúsi þegar starfsmaður segir henni að það sé síminn til hennar. Þegar hún ansar segir einhver: „Ég fylgist með þér…“
  6. Góður vinur hringir í þig og segist vilja slíta vinskapnum.
Upptaka

Upptaka

  1. Taktu upp raunverulegt samtal á símann þinn. Það gerir ekkert til þótt fleiri en tveir taki þátt í samtalinu eða hvort þú ert með í samræðunum eða ekki. Næst skaltu gera tilraun til að skrifa það niður orð fyrir orð. Ekki gleyma hikorðunum og hljóðunum sem fólkið gefur frá sér.
    • Lestu samtalið yfir með þessar spurningar í huga:
      • Hvað af þessu gengur upp í rituðu máli?
      • Hvað er áhugavert í samtalinu?
      • Er það innihaldsríkt?
      • Eru aðstæðurnar áhugaverðar?
      • Eru persónurnar sérstakar?
      • Er málfarið áhugavert? Eru slangur og slettur áberandi? Koma fram ólíkar mállýskur?
      • Talar einhver í hálfkveðnum vísum? Vekur sá hinn sami forvitni lesanda?
      • Er samtalið fyndið?
  2.  Endurskrifaðu samtalið með því að stroka út allan óþarfa. Haltu því eftir sem er áhugavert. Ef eitthvað er óljóst skaltu skerpa á merkingunni. Ef það á við skaltu bæta við hvernig eitthvað var sagt eða hvað átti sér stað á meðan.
  3. Lestu samtalið upphátt eða fáðu einhvern til að lesa það fyrir þig. Þá heyrir þú hvort samtalið sé eðlilegt eða ekki; hvort orðalagið sé klaufalegt, setningar of langar eða jafnvel of flóknar. Auk þess getur samtalið hljómað skringilega ef rímorð slæðast með eða þegar stuðlun kemur fram í máli einhvers. Lagfærðu textann ef þarf.