Rifrildi

Rifrildi

Hér eru nokkrar hugmyndir. Veldu eina og skrifaðu samtal. Stuttar málsgreinar eiga oft betur við í samtölum og það getur farið vel á að brjóta samtalið upp með athugasemdum, t.d. um svipbrigði eða hugleiðingar persóna. Vandaðu frágang. Mundu að hafa greinaskil svo lesandanum sé alltaf ljóst hver hefur orðið. Gættu þess einnig að öll greinamerki séu á sínum stað.

  • Helgi ásakar Jón um að hafa svindlað í spili.
  • Óánægður gestur kvartar undan matnum í samtali við þjón.
  • Sigríður treystir Þóru fyrir leyndarmáli en hún trúir ekki Sigríði.
  • Systkini takast á um hvort eigi að viðra hundinn á heimilinu í þetta skiptið.
  • Tveir menn lenda í árekstri. Þeir voru báðir að bakka út úr bílastæði og kenna hvor öðrum um.
  • Nemandi tekst á við kennarann sinn. Honum finnst hann hafa gert upp á milli nemenda við einkunnagjöf.
Áttavillt

Áttavillt

Skrifaðu samtal milli systkina sem voru skilin eftir á götuhorni í ókunnri borg. Þau ræða um hvað skuli til bragðs taka.

Anekdóta – samtal

Anekdóta – samtal

 

  1. Skrifaðu anekdótu sem einhver sagði þér eða sem þú varðst vitni að. Skrifaðu sögu sem þú hefur heyrt áður eða sem þú þekkir vel.
  2. Breyttu frásögninni í samtal. Skapaðu persónu sem segir annarri persónu anekdótuna. Lýstu umhverfi og aðstæðum. Hvernig bregst persónan við frásögninni? Hvernig varpar anekdótan ljósi á persónuna sem segir frá?
Óðinn og félagar

Óðinn og félagar

Norræn goðafræði er óþrjótandi brunnur fyrir ritsmiði. Veldu eina af sögunum úr Gylfaginningu og færðu hana í nútímabúning. Hér mætti t.d. nota söguna af borgarsmiðnum (42. kafli í útgáfunni á Snerpu[1]), söguna af Útgarða-Loka (kaflar 45-48 í sömu útgáfu) eða einhverja af sögunum um Loka sem bregður sér í allra kvikinda líki. Sagan af því þegar Freyr fellur fyrir Gerði er líka tilvalin (kafli 37).

Ef þér hugnast ekki að nýta sögurnar sem grunn til að byggja á mætti vel nota æsi, vani og jötna sem fyrirmyndir að persónum sem og þau ýmsu fyrirbæri sem birtast í hinni heiðnu heimsmynd. Hugtakasafn úr norrænni goðafræði má auðveldlega finna á Netinu.[2]

[1] https://www.snerpa.is/net/snorri/gylf.htm

[2] T.d. hér: https://www.snerpa.is/net/snorri/gylf.htm

Öllu snúið á hvolf

Öllu snúið á hvolf

Skrifaðu fantasíu fyrir börn byggða á þekktri sögu, t.d. „Öskubusku“. Í fantasíunni er öllu snúið á hvolf. Þá væru systurnar líklega ástríkar og stjúpan sérlega viðmótsþýð.