Persónusköpun |
Hugsaðu um einhvern sem þú þekkir, kunningja, vin eða nágranna. Lýstu viðkomandi, hver eru útlitseinkenni hans eða hennar? Lýstu hreyfingum og klæðaburði. Hvers konar hluti mætti finna í nánasta umhverfi þessarar manneskju? Það er ekki víst að þetta skipti nokkru máli en sumt af því sem kemur fram gæti afhjúpað eitthvað sem lýsir innri manni vel – endurspeglað manngerðina.
Lestu yfir mannlýsinguna og merktu við það sem þér finnst varpa ljósi á manngerðina. Til að reyna að átta sig á hvað af því sem fram kemur í lýsingunni skiptir máli getur verið gagnlegt að spyrja sig af hverju? T.d. af hverju þarf að taka fram að manneskjan sé dökkhærð?
Skoðaðu nánar þá hluta sem þú merktir ekki við. Hvernig mætti breyta þeim þannig að þau smáatriði sem bættu litlu sem engu við mannlýsinguna fái merkingu og endurspegli manngerð þess sem þú ert að fjalla um?
Persónusköpun |
Höfundurinn þarf að þekkja persónurnar sínar út og inn. Ein leið er að fylla út eyðublað eins og þetta. Geymdu það á góðum stað – þú gætir þurft að nota það síðar.
Hópvinna, Persónusköpun |
Hér er listi yfir nafnlausar persónur. Gefðu þeim viðeigandi nafn. Ritið Nöfn Íslendinga (t.d. á Snöru) gæti verið hjálplegt eða jafnvel símaskráin.
- Gamall íslenskur sirkushestur í þýsku fjölleikahúsi.
- Ungur ógiftur bóndi úr Skagafirði.
- Konungborin stúlka búsett í Evrópu.
- Litríkur páfagaukur sem getur talað.
- 16 ára áhugakona um skák og mótorsport.
- Fráskilinn háskólaprófessor sem hefur leikið í kvikmyndum.
- Ballerína sem hefur snúið sér alfarið að búningahönnun.
Stutt |
Hvaða smáatriði skipta máli? Prófaðu að lýsa skónum þínum í fáeinum línum. Lestu yfir og veltu fyrir þér hvað mætti missa sín. Hvað vegur þyngra en annað í lýsingunni?
Bygging |
Er gagnlegt að nota sniðmát til að ákvarða byggingu sögunnar? Það hentar sumum vel og reyndar sakar ekki að prófa það. Hér má sjá nokkurs konar eyðublað til að gera ágrip af sögunni.
- „Vinnuheiti“ sögunnar:
- Um hvað er sagan? (Ein málsgrein)
- Hluti I: Átök (Markmið söguhetju og andstæðings stangast á)
- Hluti II: Bakgrunnur (Hvað leiddi til þessara aðstæðna?)
- Hluti III: Ris (Uppgjör/ afhjúpun)
- Hluti IV: Lausn (Afleiðingar)