Hvað kemur svo?

Hvað kemur svo?

Veldu eina af eftirfarandi setningum, málsgreinum eða efnisgreinum og skrifaðu sleitulaust í tuttugu mínútur. Þér er óhætt að breyta þeim lítillega ef þess gerist þörf.

  • „Láttu ekki svona,“ sagði pabbi og ranghvolfdi í sér augunum. „Þú átt bara einn bróður.“
  • Ég er örvhentur.
  • [Nafn] hafði alltaf verið svarti sauðurinn í fjölskyldunni. Hvernig ætlaði hún að snúa sig út úr þessu?
  • Húsið var að hruni komið.
  • Mér gengur illa að sofna.
  • Hann var alltaf valinn fyrstur.
  • Jólatréð í stofunni lá á hliðinni.
  • „Ég beið við lúguna,“ sagði hún og missti lyklana.
  • Kistan var á útsölu.
Tívolí, tívolí, tívolí, lí, lí

Tívolí, tívolí, tívolí, lí, lí

Hripaðu niður ýmsar hugmyndir um tívolí eða skemmtigarða. Leiddu hugann að hringekju, spéspeglum, rússíbana, draugahúsi, spákonu, speglasal, parísarhjóli, klessubílum, skotbökkum eða hverju svo sem má finna á slíkum stað.

Skrifaðu stutta frásögn í 1. persónu um óhugnanlegan atburð sem gerist í skemmtigarði. Hér þarf ekki að byrja á byrjuninni. Þú getur dregið lesandann inn í atburðarásina miðja.

Afbökun

Afbökun

  1. Opnaðu Snöru og flettu upp sveitarfélagi eða borg sem þú hefur komið til og getur lýst í smáatriðum, þó ekki heimabænum þínum eða stað sem þú ert samdauna.
  2. Skrifaðu lista yfir ýmislegt sem þér finnst einkenna þennan stað. Ekki gleyma skrýtnum smáatriðum sem gætu farið framhjá öðrum. Taktu eftir matarvenjum íbúanna, fólkinu, málfari og málvenjum, veitingastöðum og verslunum, veðrinu, siðunum eða hverju því sem vakti athygli þína á umræddum stað. Skáldaðu í eyðurnar!
  3. Lestu færsluna um staðinn í Alfræðiorðabókinni á Snöru. Veittu því athygli hvernig upplýsingunum er komið á framfæri. Textinn er formlegur og fremur þurr því hann einkennist oftar en ekki af upptalningum. Punktaðu hjá þér hvaða áhrif slíkur texti hefur á lesandann.
  4. Skrifaðu lýsingu á staðnum í svipuðum dúr. Reyndu að líkja eftir „tóninum“ í orðabókinni. Umfjöllunin þín er skálduð og á að fanga andrúmsloftið þar eða tilfinningu þína fyrir staðnum. Hún þarf ekki að eiga við rök að styðjast.

 

Tvíburar

Tvíburar

Ímyndaðu þér tvíbura sem búa undir sama þaki en í hvor í sínu herbergi. Þeir eiga fátt sameiginlegt nema útlit og aldur, eru sem sagt afar ólíkar týpur. Lýstu herbergjunum þeirra þar sem skín í gegn hvaða mann þeir hafa að geyma.

Tónlist

Tónlist

Veldu lag (helst án texta), lokaðu augunum og hlustaðu á tónlistina sem ómar. Skrifaðu eina efnisgrein um umhverfið sem þú sérð fyrir þér. Endurtaktu leikinn en veldu annað lag sem er ólíkt hinu.