Fyrirboðar og tákn

Fyrirboðar og tákn

heitir bók sem kom út árið 2017 eftir Símon Jón Jóhannsson. Í bókinni er fjallað um fjölmörg tákn og fyrirboða sem birtast okkur í daglegu lífi.

Hvað táknar appelsínugulur litur? Hverju geta menn átt von á ef þeir klippa neglurnar á föstudegi? Hvaða dagar eru heppilegir til brúðkaupa? Af hverju er vissara að forðast að gefa veiku fólki hvít blóm? Hvaða merkingu hefur talan níu? Hvenær í vikunni er heppilegast að þvo þvott? Hvað gerist ef menn horfa lengi inn í örbylgjuofn?((Símon Jón Jóhannsson. (2017). Fyrirboðar og tákn: Auðnuspor og ólánsvegir í daglegu lífi. Reykjavík: Veröld.))

Blaðaðu í bókinni og skrifaðu sögu sem hverfist um eitthvert tákn eða hjátrú sem fjallað er um í henni.

Hugarkort

Hugarkort

Punktaðu hjá þér fimm til tíu orð sem koma upp í hugann. Veldu eitt af þessum orðum sem þú telur að geti kveikt hugmynd að sögu. Skrifaðu í framhaldinu önnur fimm orð eða setningar sem þér hugkvæmist og tengjast orðinu sem þú valdir. Notaðu þetta hugarkort til að skrifa ágrip af smásögu.

Slembilukka

Slembilukka

Stilltu þér upp fyrir framan bókahillu, lokaðu augunum, taktu eina bók úr hillunni og flettu nokkurn veginn inn að miðju. Nú skaltu finna eina málsgrein á síðunni og skrifa hana hjá þér. Notaðu þessa málsgrein í örsögu.

Hvað ef?

Hvað ef?

Skrifaðu fimm spurningar sem hefjast á orðunum hvað ef… Hér reynir á ímyndunaraflið því spurningarnar eiga að snúast um eitthvað sem þér finnst óhugsandi eða í besta falli fáránlegt.

Spakmæli

Spakmæli

Veldu tilvitnun eða spakmæli sem höfðar til þín. Ef ekkert kemur upp í hugann má styðjast við bækur líkt og Tilvitnanabókina eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur eða app eins og Orð í tíma töluð.  Svo má finna ógrynni spakmæla á netinu. Skrifaðu stutta sögu með ákveðna tilvitnun í huga án þess að hún komi beinlínis fram í textanum.