Stutt |
Líttu í kringum þig þar sem þú situr. Skrifaðu niður tíu hluti eða fyrirbæri sem augað nemur í umhverfinu. Veldu eitt orð úr og ritaðu það aftur á síðuna. Skrifaðu í eina mínútu um eitthvað sem kemur upp í hugann sem tengist þessu orði.
Orðalag |
Taktu þér orðabók í hönd, flettu handahófskennt í gegnum hana í leit að orði sem þú hefur aldrei heyrt eða lesið áður. Safnaðu minnst tíu orðum á þennan hátt og skrifaðu niður merkingu þeirra. Skrifaðu 5-10 línur af samfelldum texta þar sem eitt þessara orða kemur fyrir.
Stutt |
Skrifaðu orðin Ég man efst á auða síðu og haltu svo áfram. Það sem á eftir kemur þarf ekki endilega að vera samfelldur texti né í sannleika sagt.
Leiktu sama leikinn með því að skrifa Í gær efst á síðuna.
Tími |
Finndu ljósmynd úr fjölskyldualbúminu sem var tekin fyrir þína tíð. Gefðu henni lýsandi nafn og skrifaðu um af hvaða tilefni myndin var tekin eða segðu frá augnablikinu þegar smellt var af.
Stutt |
Einu sinni sagði Kristín Marja Baldursdóttir:
Allar smásögurnar snúast um einn hlut sem ég faldi svo vel að ég hef aldrei heyrt hans getið af öðrum. … áþreifanlegan hlut sem kemur fyrir í öllum sögunum, flík í hverri smásögu sem allt snýst um í raun og veru. Ég gerði það af því að svo mikið er lagt upp úr útliti kvenna og klæðnaði þeirra.
Skrifaðu stutta sögu sem snýst um einhverja flík, t.d. leðurjakka með kögri, pallíettukjól, ullarbol eða hvað svo sem þér dettur í hug.