Tveir hlutir – hópvinna

Tveir hlutir – hópvinna

Hafðu tvo hluti meðferðis í næsta tíma. Þeir eiga hvor um sig að geta rúmast í lófanum á þér.

Öllum hlutunum verður safnað saman í poka og svo á hver og einn að draga tvo hluti úr honum. Ef þú dregur hlutinn þinn þarftu að skila honum og draga aftur.

Skrifaðu stutta sögu um það sem kemur upp í hugann við að handfjatla þessa hluti.

Sá á fund sem finnur

Sá á fund sem finnur

Hafðu augun opin þegar þú ert á ferðinni. Hlutur sem þú sérð á víðavangi eða á búðarölti gæti orðið gersemi ef hann kveikir hugmynd að sögu (t.d. líkkista í Góða hirðinum, ljósmynd á handriði í stigagangi, sokkur á öxlinni á styttu…).

Draumar

Draumar

Sjón sagði einhvern tímann:

Ég hef notað drauma sem efni í ljóð og sögur alveg frá upphafi – frá því ég sendi frá mér fyrstu ljóðabókina 15 ára. … Ef ég nota ekki drauma beinlínis, þá styðst ég við tungumál draumsins.1

Rifjaðu upp eitthvað sem þig dreymdi nýlega. Skrifaðu sögu byggða á draumnum. Reyndu að gera hana trúverðuga þó að draumurinn hafi ef til vill verið undarlegur. Leggðu áherslu á smáatriði og leitastu við að skapa raunverulegar persónur. Hvað sem öðru líður, ekki ljóstra því upp að þetta hafi verið draumur.

  1. Pétur Blöndal og Kristinn Ingvarsson (ljósmyndir). (2007). Sköpunarsögur. Reykjavík: Mál og menning. []
Í fréttum er þetta helst

Í fréttum er þetta helst

Flettu dagblaðinu sem kom inn um lúguna í morgun eða skrollaðu niður fréttasíðu að eigin vali. Leitaðu að frétt sem mætti nota sem efni í sögu. Byrjaðu á því að punkta hjá þér hvaða persónur koma við sögu og veltu fyrir þér hver þeirra ætti að vera í aðalhlutverki. Í hverju felast átökin í sögunni? Kemur það fram í fréttinni eða er það einmitt undanskilið? Hér eiga persónurnar að vera í forgrunni frásagnarinnar.

Flæði

Flæði

Skrifaðu í 5 mínútur um allt sem kemur upp í hugann. Hafðu í huga að textinn sem þú skrifar er eingöngu ætlaður þér.

Þú getur gert þessa æfingu á pappír, í síma eða með því að nýta The Most Dangerous Writing App[1] en þá má ekki stoppa mikið því þá eyðist textinn

[1] https://www.themostdangerouswritingapp.com/