Sjónarhorn |
Hefur einhver nákominn þér orðið fyrir óvenjulegri lífsreynslu? Biddu viðkomandi um að veita þér viðtal og segja þér allt um málið. Spurðu hann eða hana spjörunum úr. Hér skiptir hvert smáatriði máli (eins og raunar alltaf). Þú getur tekið viðtalið upp á símann þinn eða látið duga að punkta hjá þér.
Skrifaðu lífsreynslusöguna. Hvaða frásagnaraðferð hentar best? Hvaða persónur koma við sögu? Getum við lesið hugsanir þeirra allra eða ef til vill eingöngu aðalpersónunnar? Veltu líka fyrir þér röð atburða. Þarf að segja frá í „réttri röð“?
Sjónarhorn |
Skrifaðu útdrátt úr Öskubusku. Segðu söguna frá hennar sjónarhorni.
Skiptu um frásagnaraðferð og segðu söguna frá öðru sjónarhorni, t.d. stjúpmóðurinnar, prinsins eða systranna.
Sjónarhorn |
Skrifaðu sögu frá sjónarhorni tveggja persóna sem tengjast, eru t.d. í ástarsambandi eða tengjast fjölskyldu- eða vinaböndum. Nefndu persónurnar og gefðu þeim eina síðu hvorri til að lýsa innri þrám. Frásögnin á að vera í fyrstu persónu. Þarfir þeirra og langanir stangast á og standa í vegi fyrir því að þær þrífist almennilega.
Staðsettu persónurnar í tíma og rúmi (umhverfi). Þú gætir skapað viðburð og notað sem nokkurs konar bakgrunn til að varpa ljósi á tilfinningar persónanna. Þannig verður sagan í fleiri lögum, ef svo má að orði komast.
Sjónarhorn |
Skrifaðu tvær útgáfur af sögu um mannrán. Í annarri útgáfunni er sagan sögð frá sjónarhorni mannræningjans í fyrstu persónu, í hinni frá sjónarhorni fórnarlambsins, einnig í fyrstu persónu.
Útgáfurnar tvær verða eflaust ólíkar því sjónarhornið takmarkast alfarið við sögumanninn í þessu tilviki.