Ferðalag

Ferðalag

Þegar þú reimar á þig skóna fyrir fjallgöngu eða þegar þú kannar hvort vegabréfið sé á sínum stað fyrir næstu flugferð, mundu þá að stinga niður minnisbók. Punktaðu hjá þér það sem fangar athygli þína í ferðinni. Notaðu öll skilningarvitin, líka hið sjötta.

Fjöruferð

Fjöruferð

Sjávarloftið er frískandi og það má alltaf finna gersemar í fjöruborðinu. Fáðu þér göngutúr niður að sjó. Hafðu poka eða tösku meðferðis. Tíndu í hann steina, skeljar, kuðunga, þang eða einhvern hlut sem hefur skolað á land. Ekki hirða hvað sem er, veldu vandlega það sem vekur athygli þína. Þegar heim er komið ættirðu að hafa eitthvað tvennt eða þrennt í fórum þér.

Leggðu hlutina fyrir framan þig og skrifaðu sleitulaust í fimm mínútur um hvað svo sem kemur upp í hugann þegar þú horfir á þessa hluti eða handfjatlar þá. Það má vera samhengislaust, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af stafsetningu eða greinarmerkjum – getur jafnvel sleppt þeim ef þér finnst það þægilegra.

Lestu yfir. Veldu tvær setningar sem þér finnst standa upp úr. Geymdu þær á vísum stað – það er aldrei að vita nema þú grípir til þeirra síðar.

Tilfinningar

Tilfinningar

Það getur verið auðveldara að skrifa um tilfinningar skáldsagnapersóna þegar þú hefur æft þig að orða eigin líðan. Botnaðu eftirfarandi setningar:

  • Mér líður eins og
  • Ég er
  • Mig langar
  • Ég gæti
  • Mig vantar ekki
  • Ég vildi að
  • Mig minnir
  • Ég vissi ekki
  • Mér finnst
  • Ég ætti
Skynfæri

Skynfæri

Skráðu niður hvers þú verður áskynja í heilan dag (best er að gera það jafnóðum). Lýstu lykt, hljóði, bragði, snertingu eða einhverju sem þú sérð (Levine, 2006, bls. 27).

Að hlera

Að hlera

Hleraðu samtal ókunnugra. Skrifaðu niður það sem fólkið segir nokkuð nákvæmlega. Berðu samtalið sem þú skrifaðir við samtal í skáld- eða smásögu. Í hverju felst munurinn? Hvað má missa sín? Veltu fyrir þér hvað gæti truflað lesandann eða dregið úr áhuga hans. Hér mætti einnig hlusta og horfa á samtal úr kvikmynd til samanburðar.