Fórnarlömb

Fórnarlömb

Kristín Marja Baldursdóttir rithöfundur sagði:

Ég var þrettán ára þegar ég fór að fara í leikinn minn, sem fólst í því að taka manneskju fyrir, skrifa allt um hana sem ég vissi og reyna að raða saman brotunum. Þetta var í anda Sherlock Holmes, að finna karakterinn með því að ráða í ytri tákn og einkenni fórnarlambanna. Ég tók margar persónur fyrir, unga sem aldna (bls. 144).1

Taktu Kristínu Marju þér til fyrirmyndar og veldu fórnarlamb í strætó, á kaffihúsi eða biðstofu sem þú þekkir ekkert. Fylgstu vel með því. Punktaðu jafnvel hjá þér athugasemdir um útlit, framkomu og málfar. Þú getur notað eyðublaðið úr æfingunni Að skapa persónu.

  1. Pétur Blöndal og Kristinn Ingvarsson (ljósmyndir). (2007). Sköpunarsögur. Reykjavík: Mál og menning. []
Skissa

Skissa

Komdu þér fyrir einhvers staðar í fjölmenni, t.d. við fjölfarna götu eða í verslunarmiðstöð. Tylltu þér með minnisbók í hönd og gerðu skissu af fólkinu sem á leið hjá. Ekki með því að teikna mynd heldur með orðum. Lýstu þremur manneskjum hið minnsta. Hyggðu að smáatriðum eins og handahreyfingum, klæðnaði, orðavali. Reyndu að skrifa án þess að fella dóma um viðkomandi. Láttu lýsinguna tala sínu máli.