Ronja
Vissir þú að Vigdís Gríms safnar klippimyndum á korktöflu?

Steinunn Sigurðardóttir
„Hugarflæðið [er] stöðug glíma“

Rúnar Helgi Vignisson
„Sjaldan eða aldrei hefur verið jafnmikil þörf fyrir ritfært fólk og ekki spillir sú sálarbót sem fylgir ritstörfum.“

Steinunn Sigurðardóttir
„Ég byrja aldrei fremst. Byrjunin fæðist eftir á, en endirinn frekar fljótlega, kannski þegar ég hef skrifað einn fjórða af bókinni eða er hálfnuð og hann breytist yfirleitt aldrei. En byrjunin er flóknara mál. Ég veit um að minnsta kosti einn annan rithöfund, sem það sama á við, Toni Morrison, uppáhaldið mitt.“

Pamela Painter
„Æfingar sem þessar kenna manni að líta á umheiminn sem hafsjó af kveikjum, ritlistaræfingum sem kveikja hugmynd að sögum. Í æfingunum lærir maður að meta samræður sem maður heyrir út undan sér, frétt úr dagblaði eða frásögn vinar og hvernig megi nýta sér slíkt við skrifin.“

Hermann Stefánsson
„Minnið er auðvitað kolómöguleg vél og þarf alls kyns hækjur. … Ég held að það sé vert að skrifa með penna og nota minniskompur alla vega að einhverju leyti við skáldskaparskrif.“

Vigdís Grímsdóttir
„Lesalesalesalesalesa, … vera var um sig. Sjá myndir í huganum. Ekki láta mata sig. Nýta sér alla tækni. Nýta sér Netið. Nýta sér allt. En endilega að lesa. Hvar sem þú gerir það.“

Kristín Marja Baldursdóttir
„Afi og pabbi voru bókasafnarar og þeir, ásamt ömmu, komu því inn í höfuðið á mér að ekkert í heiminum væri merkilegt nema bækur. Enn stend ég í þeirri trú. Það hefur mikla þýðingu fyrir rithöfund að vera vel lesinn. Maður smíðar ekki hús nema hafa fengið tilsögn hjá meistara áður. Upp á þekkingu og fróðleik að gera er það líka skilyrði.“

Anne Lamott
„Flétta verður til úr persónusköpun. Ef maður beinir athygli sinni að því hvaða mann sögupersónurnar hafa að geyma, situr og skrifar um tvær manneskjur sem kynnast æ betur dag frá degi, þá hlýtur eitthvað að gerast.“

Kristinn Árnason
„Ég má ekki vera of upptekinn og ég þarf að hafa næði og tíma til að dvelja einfaldlega við ástandið inni í mér og í kringum mig. Við þær aðstæður þarf oft bara litla kveikju og þá opnast fyrir eitthvað, og kveikjurnar eru alls staðar, allt sem er endalaust að eiga sér.“

Robin Hemley
„Erfiðast að vita hvenær maður á að hætta rannsóknarvinnunni og setjast að skriftum. … Ef maður gætir sín ekki mun maður aldrei gera það.“

Guðrún Helgadóttir
„[Ég] hef stundum sagt við þau að ætli þau einhvern tíma að búa eitthvað til, þá verði þau að eiga til þess afgang. Hann geti þau fengið með því að líta í kringum sig og veita því athygli hvort Esjan sé hvít í dag, brumið vaknað á trjáunum eða fuglar að fljúga um. Ef þau taki ekki eftir slíku, þá eigi þau engan afgang.“

Robin Hemley
„Til að skilja hvernig gera má skáldskap úr einhverju sem virðist hversdagslegt, verður maður að vera athugull. Rithöfundar reyna að sannfæra lesendur um að heimurinn sem þeir hafa skapað sé ekta. Þess vegna er minnisbókin nauðsynleg. … Athugaðu að það er munur á minnisbók og dagbók.

Steinunn Sigurðardóttir
„Síðan er það vel þekkt að höfundurinn strandar, kemst ekki áfram. Þá hef ég þá tækni annaðhvort að pirra mig áfram í lengstu lög, eða ráðast í allt annað verkefni. Þannig hafa orðið til frjósöm strönd [sic], til dæmis varð Ástin fiskanna til í strandi frá Hjartastað og það er ég mjög þakklát fyrir. En þetta er ævilangt verkefni að læra á sjálfan sig og sérstaklega það að kynda undir sköpunargáfunni frekar en að eyðileggja hana.“

Kate Grenville
„Eina ráðið sem ég get gefið þeim sem fást við ritstörf er að útloka „niðurrifsraddirnar“. Við þurfum að „aflæra“ ótalmargt til að öðlast frelsi til að skrifa. … Eitt af því er að hverfa frá hugmyndinni um lokaafurðina. Til að fá hlutina til að ganga upp þarf oft að gera margar atrennur.“

Robin Hemley
„Það mætti segja að það að skrifa sé eins og draumur í vöku, að sitja fyrir framan auðan skjá eða með penna á lofti og leyfa myndum að taka á sig form í kollinum. Myndum sem svífa í lausu lofti.“

Robin Hemley
„Ef við bæðum rithöfund að skrifa eingöngu um það sem hann þekkir vel, gætum við allt eins beðið leikara að hætta að leika einhvern annan eða myndlistarmann að mála bara myndir af því hann hefur barið augum.“

Gail Carson Levine
Gail Carson kallar heilan kafla í bókinni sinni Shut up! eða Þegiðu! Þar segir hún frá því hvernig hún reynir að þagga niður í úrtöluröddunum. Hún ráðleggur lesendum að losa sig við púkann í kollinum sem er svo óvæginn að maður telur réttast að hætta við allt saman. „Mér tekst yfirleitt að þagga niður í honum. Ég bið hann að leyfa mér að ljúka við það sem ég er að gera og svo má hann segja hvað sem hann vill. Þegar verkinu er lokið er hann með mér í liði og þá kemur hann að gagni.“

Anne Lamott
„Það er engin himnasæla að setjast niður við skriftir, ekki í mínu tilviki né þeirra rithöfunda sem ég þekki. Reyndar er mín eina leið til að koma einhverju á blað að skrifa arfa-, arfaslakt uppkast.“

Guðrún Eva Mínervudóttir
„Hvað er eigin reynsla? Ég byggi örugglega minna á eigin lífi en fólk gerir ráð fyrir. En auðvitað er maður samansettur úr eigin hughrifum og ímyndunaraflið moðar úr því.“

Steinunn Sigurðardóttir
Er eitthvað nýtt undir sólinni?: „Að minnsta kosti er tíminn nýr, og það þýðir meðal annars það að við þurfum að finna nýjar aðferðir til að tala um hlutina. Jafnvel landslagið þarf að skapa með nýjum orðum. Maður getur ekki skrifað um það á sama hátt og fyrri höfundar eins og Halldór Laxness, en ég heimta að finna orð til að tala um það líka, þó að það hafi verið gert áður og ofboðslega vel.“

Pamela Painter
„Þó að maður sé að fara eftir fyrirmælum þegar slíkar æfingar eru iðkaðar er ekki þar með sagt að útkoman verði tilgerðarleg eða á einhvern hátt óeðlileg, þvert á móti eru fyrstu orðin sem sett eru á blað, eftir að fyrirmælin hafa verið meðtekin, manns eigin sköpunarverk. Maður ákveður um leið sjónarhorn, tíð, tón og umhverfi.“

Kate Grenville
„Það er engin „rétt“ leið til að skrifa texta eða fást við skáldskap. … Ég trúi því að allir hafi eitthvað fram að færa, það að skrifa er að finna út hvaða form, búningur og litbrigði ritlistarinnar henta til að ná til lesandans.“

Birnir Jón Sigurðsson
„Ég mætti snemma á morgnana á bókasafn Kópavogs og markmiðið var að dvelja með andrúmsloftinu og reyna þannig að draga fram orðin. Allt annað var bannað, mér varð að leiðast. Þegar maður kemst yfir fyrstu leiðindagrindina án þess að hrasa inn í afþreyingu þá er yfirleitt hægt að komast í flæði.“

Jón Gnarr
„Íslenskan finnst mér einstaklega fallegt tungumál og mér finnst vænt um hana einsog lifandi veru. Hún er einsog búin til fyrir skáldskap.“

Steinunn Sigurðardóttir
„Aginn er eitt, án hans væri engin bók, en járngreipar eru allt annað. Ég hef grætt mikið á að vinna með hugarástandið á þann hátt að þegar ég er að semja skáldsögu og er stödd á tilteknum stað í bókinni en get ekki hugsað mér að semja um það efni næsta dag, þá skrifa ég einfaldlega um eitthvað annað sem ég veit að verður í bókinni. Suma daga er maður einfaldlega ekki upplagður að skrifa um ógurlega sorg og aðra daga getur maður ekki hugsað sér að skrifa náttúrulýsingu.“

Sjón
„Eitt af því sem flestir höfundar átta sig snemma á er að klára aldrei heldur skilja eftir opinn enda. Þá veit ég það morguninn eftir hvernig ég tækla endinn, byrja á góðu tempói og verð bjartsýnni á daginn.“

Sjón
„Hvað gerir maður þegar maður vill skrifa bók? Maður viðar bara að sér öllum upplýsingum og safnar þeim saman og af því sprettur eitthvað. Þannig er verkfræðin, maður fær vandamál upp í hendurnar, sankar að sér upplýsingum og finnur svo út hvað maður á að gera. Þess vegna er í raun og veru dálítið skrýtið að ekki fleiri verkfræðingar skuli skrifa. Við skriftir fær maður meira að segja að búa til sín eigin vandamál!“

Rúnar Helgi Vignisson
„Auðvitað getur komið að því að mann reki í vörðurnar og að maður viti ekki almennilega hvað eigi að koma næst. Sumir kalla það ritstíflu. En mér finnst uppbyggilegra að líta á það sem skilaboð frá vitundinni um að nú þurfi maður aðeins að staldra við og hugsa sig um. Leita leiða, skoða vel það sem komið er, lesa sér kannski betur til eða tala við einhvern.“

Vigdís Grímsdóttir
„Maður er alinn upp við að maður eigi að vera hógvær og af hjarta lítillátur. Innst inni held ég að ég hafi haldið að ég væri að brjóta þá fallegu reglu. En ég lærði það seinna að maður gæti alveg haldið hana í heiðri þó að maður skrifaði bækur.“

Guðrún Helgadóttir
Guðrún Helgadóttir var spurð hvort henni þyki gaman að skrifa. Hún svaraði:
„Nei. Mér finnst það erfitt og léttir stórum þegar ég er búin.“

Birnir Jón Sigurðsson
„Mér finnst smásagan líka æðisleg. Smásagan er lítill biti af persónu sem þú nartar. Bragðið er í fyrirrúmi en ekki magafyllin. Smásagan er eins og tapas á meðan skáldsagan er sunnudagslærið.“

Sif Sigmarsdóttir
„Eitt það versta við að komast í fullorðinna manna tölu er að allt sem maður gerir þarf allt í einu að þjóna einhverjum tilgangi, leiða til mælanlegrar lokaniðurstöðu: Hreint hús, staðgóð máltíð, peningar í bankanum. Ég er viss um að flestum finnist erfitt að finna tíma til lesturs í hringiðu hversdagsins. Ég reyni þó að líta á lestur eins og líkamsrækt — líkamsrækt fyrir heilann: Maður verður bara að finna tíma.“

Robin Hemley
„Dagblöð eru stútfull af efni sem mætti nota sem kveikju. … Jafnvel þótt umfjöllunin hafi við fyrstu sýn ekkert með mann sjálfan að gera er einhver ástæða fyrir því að ákveðin frétt eða grein vekur áhuga manns. Það gæti haft eitthvað með undirvitundina að gera.“

Yrsa Sigurðardóttir
„Stundum finnst mér það reyndar kvöl að setjast niður og skrifa og það er ekki þannig að andinn komi yfir mig. Ég sest niður og byrja að skrifa og þá gerist eitthvað, ekki öfugt.“

Jón Gnarr
„Tungumál er fyrir mér einsog að kubba með LEGO. Og það vantar fullt af kubbum [í íslenskuna] og stundum finnst mér kubbarnir sem eru í boði, ekki alveg nógu góðir.“

Steinunn Sigurðardóttir
„Ég geymi öll slitur sem ég skrifa, … á servéttu til dæmis, eða hótelreiking, hendi þeim ekki“

Gail Carson Levine
„Að skrifa er færni. Því meira sem maður skrifar því færari. Ég býst við að ég verði alla ævina að læra að skrifa. Því maður getur alltaf lært meira og það er það besta við að vera rithöfundur.“

Brynja Hjálmsdóttir
„Ef ég myndi skilgreina ljóð einhvernveginn væri það að ljóð er texta- eða tjáningarform sem gefur mikið af upplýsingum með því að halda aftur af upplýsingum.“

Guðrún Eva Mínervudóttir
„Ég trúi ekki á dauða bókarinnar; hún er alveg mergjað form. Það getur ekkert komið í staðinn fyrir skrifaðan texta. Ég nefni sem dæmi Amercan Psycho, sláandi kvikmynd en bókin er miklu hryllilegri og magnaðri. Það er eina bókin í lífinu sem ég varð að leggja frá mér af því að hún olli mér líkamlegri ógleði.“

Þorgrímur Þráinsson
„Ég er fljótur að leggja frá mér bók ef hún fangar ekki athyglina. Lífið er of stutt en bækurnar margar.“

Guðrún Eva Mínervudóttir
„Sagnalistin er heiminum sannarlega ómissandi – hún gerir fólki erfitt fyrir að sjá annað fólk fyrir sér sem dauða hluti. Hún sáir fræjum samúðar í huga fólks og kennir okkur að skoða tilveruna frá sjónarhorni annarra.“

Rúnar Helgi Vignisson
„[Það] eru að verða til ný bókmenntaform í seinni tíð, til dæmis í gegnum samfélagsmiðla; margir lesa Facebook á hverjum degi, hafa hana jafnvel með sér upp í rúm, og að henni eru margir höfundar.“

Sjón
„Eitt af því sem flestir höfundar átta sig snemma á er að klára aldrei heldur skilja eftir opinn enda. Þá veit ég það morguninn eftir hvernig ég tækla endinn, byrja á góðu tempói og verð bjartsýnni á daginn.“

Rúnar Helgi Vignisson
„Stefndu að framförum fremur en fullkomnun.“

Robin Hemley
„Minnisbók er heppileg til að punkta hjá sér það sem vekur athygli manns og hefur jafnvel leyst sköpunarkraftinn úr læðingi. Hvað sem er getur kveikt hugmynd, hvort sem það er bílnúmer eða brot úr samtali. Kveikjan skiptir engu máli heldur að maður gefi ímyndunaraflinu lausan tauminn sem gerir manni kleift að umbreyta veruleika í skáldskap. Það skiptir líka máli að festa hugmyndina á blað.“

Njörður P. Njarðvík
„[Mikilvægt er] að gera sér glögga grein fyrir muninum á því að segja og að sýna. Halldór Laxness segir lesendum sínum ekki að Jóni Hreggviðssyni líði illa þegar hann er hýddur, hann dregur upp mynd sem sýnir það, án þess að vanlíðan sé nokkurn tíma nefnd á nafn.“

Guðrún Helgadóttir
„Ég held þetta sé spurning um örlæti (spurð um köllunina að skrifa). Að hafa eitthvað að gefa og tíma því. Nísk manneskja skapar ekki neitt. Næsti bær við það er að vera ekki örlátur við aðra en þá sem maður elskar. Ég held að ást og örlæti leiki hlutverk í þessu ferli. … Nirfill gerir ekki neitt fyrir neinn. Maður verður að hafa eitthvað að gefa.“

Sjón
„Ég hafði oft velt því fyrir mér hvernig menn gætu skrifað svona langt mál, 150-200 síður. En ég taldi mér trú um að ég vissi nokkurn veginn hvað ætti að gerast, skipti því niður í tíu síðna kafla, og þá var enginn vandi að skrifa tíu síður.“

Hermann Stefánsson
„Ég held að það sé ekki hægt að kunna að skrifa bækur vegna þess að það er sín aðferðin við hverja þeirra og þá þarf alltaf að byrja upp á nýtt. Læra nýja aðferð.“

Þorgrímur Þráinsson
„Þegar ég var yngri skrifaði ég fram eftir nóttu og hló mig vitlausan af því mér þótt ég svo fyndinn en að morgni dags kom í ljós að næturgalsinn var glópagull.“

Gail Carson Levine
„Það ekkert til sem heitir hin fullkomna bók eða saga. Í öllum bókunum á safninu má finna einhverja agnúa, persónu sem er yfirborðskennd, klaufalegt samtal… það má finna einhverja vankanta á hverri einustu skruddu.“

Kristinn Árnason
„Varðandi spurninguna um hvort lestur og skrif séu hugleiðsla mundi ég telja það afar misjafnt, en hvort tveggja býður upp á þann möguleika þegar best lætur.“

Sif Sigmarsdóttir
„Ég reyni að fylgja ströngu ferli og sýna aga við skrifin. Ég trúi ekki á innblástur með hefðbundnum hætti, heldur trúi ég aðallega á harða rassa. Rithöfundar þurfa að setjast niður og haga málum eins og þeir séu í venjulegri 9–5 vinnu ef þeir ætla að koma einhverju í verk. Ég myndi segja að innblásturinn sé harði rassinn minn.“

Kate Grenville
„Það er erfitt að draga mörkin þegar kemur að því að skilgreina hvað sé skáldskapur og hvað ekki, en kannski er engin þörf á því.“

Hermann Stefánsson
„Það verða stundum til miklar umræður um bók sem fólk hefur ekki lesið.“

Robin Hemley
„Það krefst hugrekkis að skrifa og ef maður heldur sig ávallt við að skrifa um það sem gæti flokkast sem „öruggt“ – það sem ekki veldur usla (einnig þegar það snýst um að svipta hulunni af einhverju sem snertir mann sjálfan) … gæti það sem maður skrifar verið verulegum takmörkunum háð og hreinlega lélegt.“

Einar Kárason
„Yfirleitt skrifa ég byrjunina síðast. Mér finnst vonlaust að skrifa byrjun á bók fyrr en ég veit hvernig hún endar.“

Jóhannes S. Kjarval
„Ef þú vilt koma í veg fyrir að vera gagnrýndur, þá skaltu ekkert gera, ekkert segja og ekkert vera.”

Kristín María Kristinsdóttir
„Ég hef alltaf elskað sögur, ég held að það sé eitthvað ávanabindandi við hefðbundið form skáldsagna — upphaf, miðju og endi.“

Guðrún Eva Mínervudóttir
„Ég fæ litla hugmynd sem vefur upp á sig og breytist og breytist og breytist.“

Einar Kárason
„Ég held ekki dagbók. … Gleymskan er svo lýrísk og skapandi“

Sif Sigmarsdóttir
„Mér finnst oft felast meiri sannleikur í skáldskapnum en meintum staðreyndum.“

Rúnar Helgi Vignisson
„Enginn verður fullnuma í ritlist, hver ritsmíð er tilraun. … Nemendur þurfa að hafa svigrúm til þess að takast misvel upp án þess að fá á baukinn fyrir. Ófullkomin ritsmíð getur verið mikilvægur áfangi og útkoman tekur ekki endilega gleðina úr skriftunum; sjö ára börnum getur þótt gaman í fótbolta þó að þau séu engir snillingar. … Gleðin er lykilatriði og hún er yfirleitt í slagtogi með sköpun og tjáningu.“

Arngrímur Vídalín
„Mest les ég til að fræðast. Það er hægt að fræðast á öllum tegundum texta, líka textum sem eru falskir og illa unnir. Allir textar segja okkur eitthvað um þann sem skrifaði, um hvar hann skrifaði, um samfélagið.“

Sjón
„Það er alkunna á Íslandi og víðast hvar annars staðar að það stjórnar því ekkert hvaðan góðar bókmenntir koma. Þetta er baktería. Fólk les góða bók snemma á ævinni og hugsar með sér: „Ég ætla að gera meira af þessu.“ Þá stöðvar það ekkert.“

Sjón
„Ég held að það sé fíkn í því að skrifa, því maður verður háður því. Ég er ekkert að reyna að vera rómantískur. Það skapast vellíðan þegar maður skapar nýjan heim.“

Elín Edda Þorsteinsdóttir
„Í myndasögum getur kjarninn verið í því sem við sjáum en eigum ekki orð fyrir.“

Kate Grenville
„Skáldskapur getur verið af öllum stærðum og gerðum, ein setning eða heill doðrantur.“

Robin Hemley
„Skáldið hefur alltaf þá afsökun að það er gerður greinarmunur á sögumanni og höfundi. Ef allt væri eins og best yrði á kosið vonar sá sem skrifar að sagan virðist sjálfsævisöguleg, lýsi ósviknum tilfinningum og áþreifanlegum smáatriðum svo lesandinn sé látinn halda allt hafi gerst í raunveruleikanum.“

Arngrímur Vídalín
„Að skálda er að kukla, að skapa líf úr engu og eyða lífi … Það þarf ekki Gráskinnu til að galdra. Yfirnáttúrlegasta kraftinn, máttinn til að færa frásagnir í orð á pappír, hann öðlumst við strax á fyrstu árum skólagöngunnar. Og ef við óttumst þessa óhjákvæmilegu feigð þá er ekkert betra tæki til að fást við hana en í gegnum texta. Sérhver bók er galdrabók ef við leggjum þann skilning í málin.“

Yrsa Sigurðardóttir
„Til þess að hafa góða yfirsýn set ég atburðarásina upp í Excel-töflu og skrái inn hver kemur við sögu, hvenær og hvaða dag og hvað hefur gerst. Ég mæli með Excel.“

Robin Hemley
„Rithöfundur verður að reyna að koma auga á hvað er framandi við hið kunnuglega, að horfa á heiminn eins og hann sé að sjá allt í fyrsta sinn.“

Guðrún Helgadóttir
„Það sagði mér einu sinni höfundur að sæi aldrei fyrir sér hvað hann væri að skrifa. Ég gerði mér ekki grein fyrir að það gæti verið til. Ég get ferðast á milli herbergja og séð hvern hlut á heimili persóna minna. En hann sór og sárt við lagði að hann sæi þetta alls ekki og alls ekki heldur í litum. Mér er það óskiljanlegt. En það er allt til í þessu skrýtna ferli.“

Þorgrímur Þráinsson
„Það er heppilegt að lesa í flugvélum því þá flýgur tíminn.“

Njörður P. Njarðvík
„Orð á blaði verða að mynd í huga lesandans. Aldrei er hægt að lýsa öllu, en lesandinn þarf að fá nógu mikið til að geta skapað heildarmynd. Sífellt þarf að velja einstök atriði sem nægja til þess. Það er erfitt, ekki síst þar sem hópur fólks er saman kominn. Þess vegna bið ég nemendur oft að segja frá fjölskylduboði, þar sem eitthvað fer úrskeiðis, til þess að þjálfa þennan þátt ritlistar.“

Sif Sigmarsdóttir
„Þegar ég fékk þýðinguna í hendur áttaði ég mig á einu. Skáldsögur eru eingetnar. Þær eiga eitt foreldri sem er höfundurinn. Þýðingar eiga hins vegar tvo foreldra. Þegar ég las þýðinguna var þetta ekki lengur bara bókin mín. Jú, sagan var sú sama, orðin þýddu það sama og þau þýddu á ensku. En tónninn var ekki lengur bara minn. Andinn var ekki bara minn.“

Guðmundur B. Kristmundsson
„Færni í ritun þýðir vald. Sá sem er góður að skrifa á betra með að taka þátt í samfélaginu en sá sem ekki getur eða treystir sér ekki til að skrifa.“

E. L. Doctorow
„Að skrifa skáldsögu er eins og að keyra að næturlagi. Maður sér aðeins vegarkaflann sem háu ljósin lýsa en þannig kemst maður samt á leiðarenda. Maður þarf ekki að sjá lengra, ekki áfangastaðinn eða allt sem farið er framhjá á leiðinni. Það eina sem þarf að einblína á er þessi stutti kafli framundan.“

Rúnar Helgi Vignisson
„Það að skrifa er leið til að hugsa, til að glöggva sig á viðfansefni og leggja það niður fyrir sér. Fleyg eru orð bandaríska rithöfundarins Flannery O´Connor þess efnis að hún vissi ekki hvað hún hugsaði fyrr en hún læsi það sem hún hefði skrifað. (I write because I don‘t know what I think until I read what I say).“

Vigdís Grímsdóttir
„Ekki síður mikilvægt en að lesa eftir aðra, að hlusta á umhverfi sitt og fólk – maður er í stöðugum gróða þegar maður hittir fólk. Ég hef alltaf hlustað vel og stolið miklu. Hverju sem ég heyri. Og menn hafa pikkað í mig fyrir það. „Þú hefðir getað haft þessa setningu í gæsalöppum!“ Maður veit þá að sá hinn sami hefur lesið bókina!“

Birnir Jón Sigurðsson
„…[M]ér finnst ögn klisjukennt að segja það en ég breytist í einhvern annan þegar ég skrifa. En ég veit ekki hver það er. Er það einhver annar? Er það önnur útgáfa af mér? Er það nær mér?“

Kristín Marja Baldursdóttir
„Það hefur mikla þýðingu fyrir rithöfund að vera vel lesinn. Maður smíðar ekki hús nema hafa fengið tilsögn hjá meistara áður.“

Rúnar Helgi Vignisson
„Eitthvað hefur þvælst fyrir fólki hvernig rithöfundur verður til og hvort hægt sé að læra til starfans. Svo virðist sem margir Íslendingar telji enn að annaðhvort séu menn fæddir höfundar eða ekki, rétt eins og menn töldu forðum að inni í skáldinu byggi guð sem veitti því innblástur. Aftur á móti virðist fólk ekki hafa sérstakar áhyggjur af því hvernig myndlistarmenn, tónlistarmenn eða leikarar verði til, hvaða ályktanir sem draga má af því.“

Robin Hemley
„Í draumum kemur nær alltaf fram myndmál, líkingar og tákn. Draumurinn er nokkurs konar túlkun á lífi þess sem dreymir – raunveruleikanum snúið á hvolf. Þegar ætlunin er að nota draum sem efni í sögu er brýnasta verkefnið að láta líta út fyrir að þetta hafi gerst í raun - að sagan sé trúverðug. Galdurinn er að dvelja við smáatriði.“