Æfingar

Flokkur > Umhverfi

Lýsingar

Hér eru umhverfislýsingar úr nokkrum ungmennabókum. Lestu þær vandlega.

  • Skrifaðu stikkorð við hvert textabrot. Hvað er áberandi í hverju broti fyrir sig?
  • Strikaðu undir þær málsgreinar sem fanga athygli þína. Veldu eina og lýstu því í örfáum orðum hvers vegna þú valdir hana.

Umhverfislýsing 1

„Þegar þriggja hæða blokk hrynur myndast fjall. Úr verður hrærigrautur af útveggjum, húsgögnum, fatnaði, matvælum og innveggjum og alls staðar geta leynst verur, lífs eða liðnar“ (Úr Vertu ósýnilegur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, bls. 22).

Umhverfislýsing 2

„Veggirnir eru gulir og loftið svart. Í loftið hafa systurnar málað gular stjörnur. Bleik, græn og fjólublá teppi og tjöld þekja svo veggina. Þau eru gullbrydduð með útsaumuðum sólargeislum og túrkis-bláum tunglum. Á innanverðri hurðinni eru speglar sem ná niður að gólfi. Mjúkir púðar í öllum litum liggja á tveimur rúmum og snyrtiborð er þar á milli. Á borðinu eru gerviblóm í vasa og snjókúla með litlu húsi, fólki og snjókarli í glitflögum. Í hvert skipti sem Selma stígur inn í veröldina þeirra Línu hríslast um hana vellíðunartilfinning. Þarna er heimur utan við heiminn“ (Úr Vertu ósýnilegur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, bls. 39).

Umhverfislýsing 3

„… [É]g bauð Söru í sýnisferð um íbúðina þó að hún hafi séð hana oft áður. Við byrjuðum á unglingaherberginu. Sara sagði það minna sig á Árbæjarsafn. Hún sagði að beddinn minn liti út fyrir að vera ekki deginum yngri en hundrað og fimm ára. Hún settist síðan á hann og það brakaði auðvitað svakalega í honum. … Við Sara enduðum skoðunarferðina í unglingaherberginu á að kíkja mjög hratt inn í þann helming fataskápsins sem amma hafði umsjón með. Sara rak upp stór augu þegar hún sá allt draslið sem amma hafði sankað að sér og sagðist ekki efast um að þarna inni mætti finna gullstangir og dóp. Og jafnvel týnda hlekkinn í þróunarsögunni líka“ (Úr Hafnfirðingabrandaranum eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, bls. 70-71).

Umhverfislýsing 4

„Tuttugu mínútum síðar sitja þau hlið við hlið í slitnum tveggja manna sófanum í stofunni hans. Hún er að hluta til undir súð og svo lítil að hún rétt rúmar sófann, sjónvarpið, hljómflutningstækin og standinn með geisladiskunum. Á einum stað er sæmilegt veggpláss og þar hangir stórt plakat af Bruce Lee með skrámur á maganum og keðjukylfu milli handanna. Á lága borðinu fyrir framan sófann logar á sprittkerti í koparskál og þar eru líka tvö ósnert vatnsglös því hann átti ekkert annað að bjóða henni – hafði ekki hugsað svo langt“ (Úr Úlfshjarta eftir Stefán Mána, bls. 42-43).

Umhverfislýsing 5

„Þrjú herbergi komu til greina sem austurherbergið og það var augljóslega þetta með óuppábúna rúminu og sænginni. Frábært, hann þyrfti að setja utan um hana, hvar var þetta fokkings hol og rúmfötin? Hann nennti ekki að standa í neinu rugli og lagðist í öllum fötum upp í rúmið. Hvar í andskotanum var hann staddur? Þarna var plakat af Jóni Páli og David Bowie, hilla með útsagaðri dúfu og lítil fánastöng með upplituðum íslenskum fána. Heill veggur með bókum og plötum. Borð með retró-græjum; magnari og plötuspilari. Svona leit helvíti út eða hliðarhelvítið eitís“ (Úr Sölvasögu unglings eftir Arnar Má Arngrímsson, bls. 30).

 

 

 

 

 

 

orange megaphone on orange wall

Markmið æfingar

Að gefa umhverfislýsingum í sögum annarra gaum. Að gera sér grein fyrir hvernig nostur við smáatriði getur kallað fram ljóslifandi mynd í huga lesandans.